Um okkur

Um okkur

Merkisjoppan ehf er lítið fjölskyldufyrirtæki, rekið af okkur hjónum Höllu Vilborgu og Elíasi með dyggri aðstoð barnanna okkar, þeim Lilju Maren og Jóni Breka. Enn sem komið er rekum við fyrirtækið eingöngu sem netverslun og er skrifstofan okkar því staðsett heima hjá okkur í Breiðholtinu.

 

Hvernig virkar Merkisjoppan

Merkisjoppan var upphaflega opnuð sem áhugamál okkar hjóna, við vorum (og erum reyndar enn) bæði í fullri vinnu annars staðar en þegar við fengum þetta tækifæri upp í hendurnar ákváðum við að slá til. Merkisjoppan átti að reka sig að miklu leyti sjálf, viðskiptamódelið var einfalt í fyrstu. Við ætluðum ekki að merkja sjálf heldur erum við með frábæran birgja erlendis sem merkir allt fyrir okkur.  Það fyrirkomulag er aftur á móti byggt á því að allar vörur séu merktar eins og þannig fer verð hratt lækkandi eftir því sem fleiri einingar eru pantaðar. Gallinn við þetta er að séróskir eins og t.d. mismunandi nöfn á brúsa eða boli var erfitt fyrir okkur að framkvæma, eins var mjög dýrt að versla hjá okkur í stykkjatali og þurftum við því stundum að vísa frá okkur verkefnum sem okkur þótti mjög leiðinlegt.

Við tókum því ákvörðun haustið 2020 að fjárfesta í pressum og prentara svo við gætum tekið að okkur verkefni af öllum stærðum og gerðum. Það sem við gerum því núna er að meta hvert verkefni fyrir sig, sumt prentum við sjálf en annað fer til framleiðslu hjá birgja og því er bæði afhendingartími og verð örlítið mismunandi. Við reynum hinsvegar eftir fremsta megni að vera gagnsæ, verðin eru birt á heimasíðunni okkar miðað við þær forsendur sem gefnar eru þar en í flóknari verkefnum er best að hafa samband við okkur og fá tilboð. Eins er vöruúrvalið okkar það stórt að það er í raun ógerningur að koma öllum vörum inn á síðuna en það er alltaf hægt að fletta bæklingnum okkar á síðunni og fá tilboð í allar þær vörur sem þar er að finna. Af sömu ástæðu sitjum við ekki á stórum lager en erum með góða flutningssamninga í gegnum okkar birgja og getum því fengið vörur afhentar fljótt og örugglega.

Jafnframt erum við með samninga við fleiri birgja svo ef þú finnur ekki það sem þú ert að leita að má alltaf heyra í okkur og það er mjög sennilegt að við getum græjað það. Netfangið okkar er merkisjoppan@merkisjoppan.is  

 

Teymið okkar 

Eins og áður segir erum við fjölskyldufyrirtæki og við fjölskyldan sjáum alfarið um allt sem viðkemur rekstrinum.

Elías hefur mikla reynslu af sölu- og markaðsstörfum enda hefur það verið hans aðal starfsvettvangur síðustu 20 árin. Elías er eyjamaður í húð og hár og hefur sterkar taugar til heimahaganna þó svo hann hafi ekki búið þar nema örfá ár af sínu lífi. Hann missir aldrei af Þjóðhátíð og því eru þjóðhátíðarpeysur hans sérstaka áhugamál.

Halla er markaðsfræðingur, einnig með mikla reynslu af sölu- og markaðsstörfum en hefur undanfarið snúið sér meira að stjórnun og mannauðsmálum. Halla er borgarbarn í eðli sínu en hefur einnig búið í Vestmannaeyjum og Englandi. 

Jón Breki er 19 ára, frábær listamaður enda sér hann um alla hönnun og myndvinnslu fyrir okkur. Hann er að mennta sig í grafískri hönnun en er einnig mjög öflugur í prentun á þeim vörum sem við prentum sjálf hér heima.

Lilja Maren er 20 ára og er „allt muligt“ manneskjan okkar, hoppar í þau störf sem eru aðkallandi hverju sinni og peppar okkur þess á milli með söng og gleði. Okkur finnst að allir vinnustaðir þurfi að hafa eina Lilju Maren.